Viðskipti innlent

Íslendingahótel í Danmörku gjaldþrota

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
MYND/Samhotels.dk

Sam Hotels í Nyköbing í Danmörku var í dag lýst gjaldþrota. Hótelið var í eigu íslendingsins Sigtryggs Magnússonar. Það hafði staðið höllum fæti um nokkurt skeið, og var við það að vera tekið til gjaldþrotaskipta fyrr í sumar vegna vangoldinna skatta.

Vísir greindi frá því í lok júlí að annar Íslendingur, Jósteinn Þorgrímsson, hefði á síðustu stundu náð samkomulagi við lánadrottna og eigendur, og hefði tekið hótelið yfir. Hótelið er 14 þúsund fermetrar og með meira en hundrað herbergi, og samkvæmt heimildum Vísis var kaupverð ekki undir tveimur milljörðum króna. Jósteinn sagði í samtali við Vísi á þeim tíma að vel hefði gengið að fjármagna verkefnið, enda hefðu menn tröllatrú á því.

Trúin greiðir ekki skuldir. Folketidende.dk greinir frá því í dag að eftir að krafan um gjaldþrotaskipti var lögð fram hafi skiptaréttur gefið eigendum hótelsins frest til að koma málunum í lag. Sá frestur hafi verið framlengdur nokkrum sinnum í sumar. Hinsvegar hafi aldrei verið gengið formlega frá eigendaskiptunum, og því hafi rétturinn í dag ákveðið að lýsa hótelið gjaldþrota.

Ekki náðist í Jóstein eða Sigtrygg við vinnslu fréttarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×