Viðskipti innlent

Telur umsókn Íslands um neyðarlán hjá ESB tengjast IMF

Greining Glitnis telur að umsókn Íslands um framlag úr nýstofnuðum neyðarsjóði Evrópusambandsins (ESB) tengist aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) að uppbyggingu íslensk efnahafslífs að nýju.

Í Morgunkorni greiningar Glitnis segir að neyðarsjóðurinn hafi 25 milljarða evra til ráðstöfunar sem samsvarar tæplega 4.000 milljörðum kr. „Fái Ísland lán frá sjóðnum er líklegt um sé að ræða aðkomu ESB að hjálparáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) og íslensku ríkisstjórnarinnar.," segir í Morgunkorninu.

Ísland hefur sótt um framlag úr nýstofnuðum neyðarsjóði Evrópusambandsins (ESB) sem ætlað er að aðstoða aðildarríki ESB og nágrannalönd sem lent hafa í erfiðleikum vegna lausafjárkreppunnar. Þetta segir Joaquin Almunia sem fer með efnahagsmál í framkvæmdastjórn ESB við breska blaðið Times í dag.

Auk Íslands hefur Ungverjaland sótt um lán frá neyðarsjóðnum en áætlun IMF og stjórnvalda Ungverjalands bíður nú samþykkis í Washington líkt og áætlun Íslands.

Eins og kunnugt er hafa Íslensk stjórnvöld meðal annars leitað til ESB um að fá lán til viðbótar við þá 250 milljarða kr. sem IMF mun lána Íslendingum. Sú upphæð er þó einungis þriðjungur þess sem þarf samkvæmt orðum forsætisráðherra. Auk þess munu Norðurlöndin vera að sjóða saman áætlun um aðstoð undir forystu Svía.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×