Erlent

Obama formlega gerður að forsetaefni

Obama var hylltur af mörg þúsund Bandaríkjamönnum í gær. Mynd/ AFP.
Obama var hylltur af mörg þúsund Bandaríkjamönnum í gær. Mynd/ AFP.

Barack Obama tók í nótt formlega við tilnefningu sem forsetaefni bandarískra demokrata á landsþingi þeirra í Denver í Colorado fylki.

Í ræðu sem Obama hélt hét hann því að gera allt sem í hans valdi stæði til þess að skapa jöfn tækifæri fyrir alla. Hann lofaði jafnframt að gera allt sem hann gæti til að vinna bug á efnahagsvandanum í Bandaríkjunum. Einnig hét hann því að kalla herlið Bandaríkjamanna frá Írak. Þá gagnrýndi hann stjórn Bush Bandaríkjaforseta síðastliðin átta ár harðlega og sagði að Bandaríkjamenn ættu betra skilið.

Obama gagnrýndi jafnframt harðlega John McCain, helsta keppinaut sinn um forsetaembættið. Hann sagði að McCain væri úr takti við alla venjulega Bandaríkjamenn og að hann gæti ekki tekist á við málefni á borð við efnahagsmál, heilbrigðis- og menntamál.

Fljótlega eftir að Obama hélt ræðuna birti McCain auglýsingu þar sem hann óskaði Obama til hamingju með útnefninguna. En auglýsingunni fylgdi síðan yfirlýsing frá talskonu framboðs McCains, sem sagði að ræða Obama hefði verið mjög villandi. Í yfirlýsingunni sagði jafnframt að Obama væri ekki reiðubúinn til þess að verða forseti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×