Viðskipti erlent

Sterling seldi flugmiða tæpum klukkutíma fyrir gjaldþrotið

Í ljós hefur komið að Sterling seldi flugmiða allt þar til aðeins klukkutíma áður en félagið tilkynnti um gjaldþrot sitt.

Greint er frá átakanlegri reynslu Karin Barmbo frá Svíþjóð í Jyllands-Posten. Móðir hennar býr á Spáni og fékk hjartaáfall í gærkvöldi. Karin pantaði því miða hjá Sterling til Alicante og átti flugið að verða klukkan 11 í morgun að dönskum tíma.

Í nótt átti Karin í erfiðleikum með að fá staðfesta miðapöntun sína þar sem tölvukerfi Sterling var hætt að virka. Karin náði svo sambandi við farþegaþjónustu Sterling kl. 01.30 í nótt. Þar fékk hún staðfestingu á farmiðapöntun sinni og jafnframt sendi þjónustan henni ferðaáætlun og staðfestinguna með tölvupósti.

Það var svo klukkan 02.20 að tilkynningin barst um gjaldþrot Sterling. Það vissi Karin ekkert um þegar hún kom til Kastrup-flugvallar í morgun til að ná flugi sínu til Alicante.

"Ég veit ekki hvað skal segja. Þetta var ekki það sem ég þurfti á að halda. Móðir mín liggur á sjúkrahúsi og ég veit varla hvort hún er lífs eða liðin," segir Karin. "Ég skil ekki í því að þeir seldu mér miða svona seint. Þeir hljóta að hafa vitað eitthvað."

Karin vonast til að komast til móður sinnar seinna í dag með öðru flugfélagi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×