Viðskipti erlent

Hluthafar í Roskilde Bank í biðröð eftir að lögsækja bankann

Óánægðir og reiðir hluthafar í Roskilde Bank standa nú í biðröðum eftir því að geta lögsótt bankastjóra og fyrri stjórn bankans. Þegar hafa um 4.600 þeirra skráð sig hjá Danska hluthafasambandinu þar sem ætlunin er að setja saman lögsóknina gegn bankanum.

Í umfjöllun á Business.dk um málið segir að lögfræðisnaran sé nú að herðast að fyrrum og núverandi stjórnendum hins gjaldþrota banka. Formaður hluthafasambandsins, Charlotte Lindholm, segir að hún hvetji alla hluthafa í bankanum til að skrá sig fyrir komandi lögsókn.

Í allt eru 32.543 einstaklingar og lögaðilar skráðir fyrir hlutafé í Roskilde Bank. Þar af keyptu 11% þeirra hluti sína árið 2007 en þessir hlutir eru nú taldir verðlausir.

Lindholm vill ekki greina frá því á hvaða grunni lögsóknin gegn bankanum verði. Það sé enn verið að ganga frá því í samráði við sérfræðinga í fjármálarétti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×