Viðskipti innlent

Heimilin í góðri stöðu til að taka á sig skell

Heimilin eru í nokkuð góðri stöðu til þess að taka á sig skell í nýhafinni niðursveiflu að mati greiningardeildar Glitnis.

Fjallað er um efnahagshorfunar í Morgunkorni Glitnis og bent á að kaupmáttur heimilanna hafi rýrnað um 4,5 prósent það sem af er þessu ári í takt við vaxandi verðbólgu. Þá hafi atvinnuleysi aukist þótt það sé enn mjög lítið. „Loks eru vextir háir en stýrivextir Seðlabankans eru 15,5% og yfirdráttarvextir bankanna komnir yfir 26%. Rekstrarreikningur heimilanna lítur því öllu verr út núna en hann gerði í upphafi árs," segir greiningardeildin.

Einnig er efnahagsreikningur heimilanna sagður hafa versnað nokkuð með lækkandi íbúðaverði og vaxandi verðbólgu. Skuldir heimilanna hafi aukist með vaxandi verðbólgu og lækkandi gengið krónunnar, en 13 prósent lána heimilanna eru gengisbundin. Þá er lækkun hlutabréfaverðs skellur fyrir heimili sem hafa verið skuldsett vegna þeirra.

Íslendingar aldrei svartsýnni

Enn fremur bendir greiningardeild Glitnis á að svartsýnin sé mikil í samfélaginu ef tekið er mið af væntingavísitölu Gallup. Svartsýnin hafi ekki verið meiri frá því að mælingar á vísitölunni hófust árið 2001. „Væntingavísitalan hefur lækkað skarpt frá áramótum og farið úr 116 stigum í 61 stig á þeim tíma. Þegar vísitalan er undir 100 þá eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir í garð efnahags- og atvinnuástands," segir í Morgunkorninu. Bent er á að heimilin hafi brugðist við breytingum á efnahagsumhverfinu með því að draga úr neyslu sinni.

„Eftir örar efnahagsframfarir undanfarinna ára var staða íslenskra heimila sterk við upphaf nýhafinnar niðursveiflu. Kaupmáttur hafði aldrei verið meiri og eignaverð var í hámarki, og skipti þar engu hvort litið væri til verðs íbúðarhúsnæðis, hlutabréfa eða gengis krónunnar. Hrein eignastaða heimilanna var einnig afburða góð. Skuldir á móti eignum námu um 29% að meðtöldum lífeyriseignum um síðustu áramót. Ef lífeyriseignir eru ekki meðtaldar nam skuldahlutfallið 40%. Eiginfjárstaðan var því sterk. Afborganir og vextir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum voru heldur ekki háar, eða um 20%. Þá var samsetning lána nokkuð hagstæð en skuldir heimilanna eru mestmegnis langtíma verðtryggð lán með föstum vöxtum. Heimilin eru því í nokkuð góðri stöðu til að taka á sig skell," segir greiningardeildin um horfurnar.

Hún reiknar með að mestu erfiðleikarnir komi með vaxandi atvinnuleysi, sérstaklega ef því fylgi langvarandi tekjumissir. „Í ljósi þess að við spáum að atvinnuleysi aukist ekki nema lítillega í núverandi niðursveiflu er hér ekki um stóran áhyggjuþátt að ræða. Reiknum við með því að atvinnuleysi aukist úr 1,0% í fyrra í 3,8% árið 2010," segir að endingu í Morgunkorni Glitnis.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×