Handbolti

Alfreð: Nú þarf þjóðin að taka við sér

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð segir íslenska landsliðinu til á EM í handbolta í vetur.
Alfreð segir íslenska landsliðinu til á EM í handbolta í vetur. Mynd/Pjetur

„Ég vona að sama hvernig úrslitaleikurinn fer að fólk kveiki á því að það þarf að gera eitthvað fyrir handboltann á Íslandi. Þetta er hluti af okkar menningu og við erum að setja milljarða í aðra menningu."

Skýr skilaboð frá Alfreð Gíslasyni, fyrrverandi landsliðsþjálfara, og núverandi þjálfara þýska stórliðsins Kiel. Hann sagði í samtali við Vísi að árangur Íslands á Ólympíuleikunum í Peking sé sá besti í íslenskum handbolta frá upphafi.

„Það var frábært að ná þessu. Það er greinilega frábær stemning í liðinu og allir eru að leggja sitt af mörkum. Það eru nýjir menn að koma inn í liðið, eins og Björvin Páll sem hefur átt marga stórleiki í Peking. Hann er að stimpla sig inn í alþjóðlegan handbolta svo um munar."

Ísland vann í dag sex marka sigur á Spáni, 36-30, og tryggði sér þar með sæti í úrslitaleiknum gegn Frökkum á sunnudagsmorgun. Alfreð sá reyndar ekki leikinn.

„Ég er fastur hér í rútu á leið í leik með liðið. En ég fékk skilaboð á mínútufresti í símann minn. Þetta var alveg frábært," sagði hann.

„Þetta er mjög vel samsettur hópur. Við eigum þar að auki ekki í neinum meiðslum nú eins og svo oft áður sem skiptir líka miklu máli. Gummi (þjálfari) og Einar (framkvæmdarstjóri HSÍ) og allir í kringum liðið hafa líka staðið sig frábærlega. Þetta er frábær heild eins og ég upplifi þetta."

Alfreð segir að Frakkar verði að teljast sigurstranglegri í úrslitaleiknum.

„Það er alveg á hreinu. En við höfum sýnt að við getum unnið Frakka en til þess þarf flest að ganga upp. Við erum með lið sem getur þetta en til þess þurfa allir að eiga stórleik."

„Pressan er þó meiri á Frökkunum. Þeim mun meira sem við komumst inn í leikinn þeim mun meiri möguleika eigum við."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×