Viðskipti innlent

Exista tapaði fimm milljörðum á fyrsta ársfjórðungi

Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir.
Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir. MYND/GVA

Fjármálaþjónustufyrirtækið Exista tapaði um fimm milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samkvæmt tilkynningu sem birt er á heimasíðu Kauphallar Íslands. Þá er miðað við gengi dagsins í dag.

Þar segir einnig að hagnaður af fjármálaþjónustu eftir skatta hafi numið 7,7 milljörðum króna en tap af fjárfestingum hafi numið 12,7 milljörðum. Heildareignir félagsins reyndust 851 milljarði við lok fyrsta ársfjórðungs og minnkuðu um átta prósent frá áramótum.

Eigið fé er 264 milljarðar og minnkaði um 1,5 prósent. Hins vegar lækkuðu heildarskuldir Existu um nærri ellefu prósent á tímabilinu. Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að félagið eigi nægilegt lausafé til að mæta endurfjármögnun til desember 2009.

Sátt við niðurstöðuna

„Við erum sátt við útkomu Exista úr ársfjórðungi sem reynst hefur fyrirtækjum í fjármálaþjónustu sérlega erfiður. Þrátt fyrir neikvæða afkomu, þá hefur Exista staðið vörð um sterkar fjárhagslegar undirstöður, öfluga lausafjárstöðu og framúrskarandi eignir. Við höfum hagað starfsemi Exista, kostnaðaraðhaldi og áhættustýringu með þeim hætti að tekist hefur að tryggja fjárhagsstyrk og lausafé félagsins á tímum umróts á alþjóðamörkuðum.

Samhliða höfum við tekið mikilvæg skref við að skapa ný sóknarfæri, svo sem með kaupum á Skiptum. Ítök Exista í fjármálaþjónustu á Norðurlöndum halda áfram að aukast og skapa félaginu spennandi möguleika til framtíðar," segir Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista, í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×