Viðskipti innlent

Straumur lagði fram viðbótarveð til SÍ upp á 18 milljarða

Straumur lagði í dag fram viðbótarveð hjá Seðlabankanum (SÍ) upp á 18,3 milljarða króna. Er þetta vegna kröfu SÍ um aukin veð vegna óvarinna verðbréfa útgefnum af viðskipabönkunum þremur.

Straumur tekur fram í tilkynningu um málið að eiginfjárhlutfall Straums sé í dag yfir 20 prósent, en lögbundið lágmark er átta prósent. Bankinn heldur þétt utan um lausafjárstöðu sína og er sem fyrr í skilum með allar skuldbindingar.

Nettóstaða Straums gagnvart Landsbanka Íslands hf., Glitni banka hf. og Kaupþingi banka hf. hvað varðar afleiðuviðskipti og lánasamninga var jákvæð.

Seðlabanki Íslands tilkynnti Straumi þann 20. október að hann myndi auka frádrag á óvörðum verðbréfum útgefnum af ofangreindu bönkunum þremur, sem lögð hafa verið fram til tryggingar í viðskiptum við Seðlabankann, í 50 af hundraði. Vegna þessa hefur Straumur lagt fram viðbótarveð hjá Seðlabankanum að fjárhæð um það bil 18,3 milljarðar króna sem Seðlabankinn hefur samþykkt í dag.

William Fall, forstjóri Straums segir að stefnan sem þeir hafi framfylgt undanfarið hálft annað ár eða svo hafi gert þeim kleift að komast í gegnum þetta erfiða tímabil.

„Við höfum minnkað efnahagsreikninginn og lagt aukna áherslu á þóknunartekjur, sem þýðir meðal annars að fjármögnunarþörf okkar er minni en ella hefði verið. Í öðru lagi höfum við sótt fram á erlendum vettvangi og þannig dregið úr hlutfallslegu vægi Íslands í starfseminni," segir Fall.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×