Skoðun

Áskorun til veitingamanna

Ég lít svo á að nú þurfum við veitingamenn að endurskoða hlutverk okkar og sýna sömu ráðdeildarsemi, auðmýkt og velvilja í garð náungans og ætlast er til af öðrum Íslendingum á þessum erfiðu tímum.

Áður fyrr voru veitingahús kölluð greiðasölur þar sem þreyttir og svangir ferðalangar gátu reitt sig á að fá góðan beina í merkingunni að njóta veitinga og gestrisni. Í orðabókinni er sögnin að beina m.a. útskýrð svona: efla, hjálpa, greiða fyrir.

Það er í þeim anda sem ég skora á veitingamenn að taka höndum saman og gera sem flestum kleift að koma saman yfir góðum en ódýrum málsverði.

Við getum stuðlað að því á ýmsan hátt; með því að fjölga tilboðum með ódýrum réttum, bjóða upp á fjölskyldumáltíðir á lægra verði, lækka verðið einn dag í viku eða fara svipaða leið og við á Sjávarbarnum ákváðum að fara, að lækka verðið á sjávarréttahlaðborðinu okkar um helming á kvöldin.

Þetta ætti að auðvelda fjölskyldum og vinahópum að eiga góða stund saman á veitingahúsi. Það hefur enda sjaldan verið mikilvægara að fólk hittist, spjalli saman og stappi stálinu hvert í annað. Um leið eru meiri líkur á því að veitingahúsin lifi af þá erfiðu mánuði sem fram undan eru þótt hagnaðurinn verði minni en enginn um skeið.

Höfundur er veitingamaður á Sjávarbarnum.






Skoðun

Sjá meira


×