Viðskipti innlent

SPB horfir fram á gjaldþrot ef SÍ stendur við kröfu sína

Agnar Hansson forstjóri Sparisjóðabanka Íslands (SPB) segir að það sé augljóst að bankinn stefni í gjaldþrot ef Seðlabanki Íslands stendur við kröfu sína um auknar tryggingar upp á 60 milljarða kr. frá SPB.

Seðlabankinn tilkynnti SPB að verðmæti óvarinna verðbréfa sem Sparisjóðabankinn hefur í veðlánunum hjá Seðlabankanum og útgefin voru af Glitni, Kaupþingi og Landsbanka, hafi verið endurmetin. Af þeim sökum er krafist aukinna trygginga frá SPB. Frestur til þessa er fram á morgundaginn.

Agnar segir að þeir séu nú í viðræðum við Seðlabankann og ríkisstjórnina um lausn á þessu máli. „Það getur varla verið ætlunin hjá þessum aðilum að setja restina af bankakerfi landsins í þrot," segir Agnar.

Aðspurður um hvað SPB geti gert í stöðunni eða hvaða möguleika bankinn sjái segir Agnar að þeir vildu helst að beðið væri með kröfuna þar til útséð verður hvert verðmæti þessara verðbréfa verður þegar upp er staðið og búið verður að gera bankana þrjá upp. Slíkt um þó taka töluverðan tíma.

„Það er hinsvegar ljóst að Sparisjóðabankinn hefur alls ekki bolmagn til að leggja fram tryggingar upp á þessa upphæð eins og staðan er í dag," segir Agnar.

Þess má geta að svo virðist sem Seðlabankinn hafi lækkað verðmæti fyrrgreindra bréfa um helming. Fregnir berast hinsvegar erlendis frá að bréfin séu seld á sem svarar 3 aurum fyrir hverja krónu að nafnverði. Þannig megi álíta að bréfin séu í raun verðlaus.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×