Viðskipti innlent

Farþegar geta innritað sig á netinu

Icelandair býður viðskiptavinum sínum að innrita sig á netinu í öll flug frá landinu frá og með deginum í dag. Farþegar geta með því að fara inn á icelandair.is innritað sig í flug sitt um það bil sólarhring fyrir flug, eða með 22 klukkustunda fyrirvara.

„Mikill fjöldi fólks er á leið til útlanda nú fyrir páskana og ljóst að margir munu nýta sér þessa nýju þjónustu," segir í tilkynningu frá Icelandair. „Innritunin er mjög einföld; skráð er inn eftirnafn farþega og bókunarnúmer og þá býðst viðskiptavinum að velja sér sæti í yfirlitsmynd af flugvélinni.

Farþeginn p rentar síðan út brottfararspjald með strikamerkingu heima hjá sér. Allt ferlið tekur innan við eina mínútu.

Þegar komið er í Leifsstöð geta farþegar gengið beint í öryggisleit og sýnt þar brottfararspjaldið. Þeir sem ferðast með farangur fara í sjálfsafgreiðslustöðvarnar í innritunarsalnum (kiosk), sem les strikamerkinguna á brottfararspjaldinu og prentar út farangursmiða.

Farangurinn er afhentur starfsmanni á innritunarborði fyrir vefinnritun og sjálfsafgreiðslu."

„Netinnritunin er liður í að auka þægindi farþega og stytta biðtíma í Leifsstöð. Þróunin er sú að langflestir kaupa rafræna farseðla á netinu og netinnritunin er eðlilegt framhald á því. Þessi þjónusta hefur verið í tæknilegum undirbúningi hjá okkur um tíma og við lögðum áherslu á að byrja hérna á Íslandi, þar sem flestir okkar farþega eiga leið um. Við munum svo innan tíðar bjóða upp á netinnritun frá áfangastöðum okkar erlendis", segir Gunnar Már Sigurfinnson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs Icelandair.

Farþegum Icelandair býðst einnig sem fyrr sjálfsinnritun í 18 "kiosk" stöðvum í innritunarsalnum í Leifsstöð auk þess sem sjálfsinnritunarstöðvar eru á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu.

Fyrstu sjálfsinnritunarstöðvarnar voru teknar í notkun fyrir rúmlega einu og hálfu ári en með þeim gefst farþegum Icelandair kostur á að innrita sig til áfangastaða Icelandair með allan hefðbundinn farangur og velja sér sæti í flugvélinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×