Skoðun

Þjóðréttarlegar skuldbindingar

Ríkisstjórn Íslands hefur lýst því yfir að innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verði tryggðar að fullu. Í þessari yfirlýsingu felst jafnframt að innstæður sparifjáreigenda í erlendum útibúum íslensku bankanna eru ekki tryggðar af hálfu ríkisins. Óljóst er hvort fallist verði á kröfur um að erlendar innstæður verði tryggðar.

Ábyrgð vegna TryggingarsjóðsMeð lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar var innleidd í íslenskan rétt tilskipun EB frá 1994 um innlánatryggingakerfi. Er lögunum ætlað að tryggja innstæðueigendum í viðskiptabönkum lágmarksvernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Með tryggingar samkvæmt fyrrgreindum lögum fer Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta. Ljóst er að fjármunir sjóðsins munu ekki nægja til greiðslu allra innstæðna sem voru í gömlu bönkunum og ekki heldur þeirrar lágmarkstryggingar sem kveðið er á um í lögunum og fyrrnefndri tilskipun EB, en hún nemur 20.887 evrum fyrir samanlögð innlán hvers innstæðueiganda.

Telja verður að Tryggingarsjóðurinn, sem er sjálfseignarstofnun og innheimtir greiðslur í sjóðinn frá þeim sem eiga aðild að honum í samræmi við ákvæði laga nr. 98/1999, beri aðeins ábyrgð á skuldbindingum sínum að því marki sem fjármunir sjóðsins hrökkva til. Eðli málsins samkvæmt hefur fjármögnun sjóðsins ekki verið háttað þannig að hann gæti staðist skuldbindingar sínar ef til þess kæmi að allir bankar landsins færu í þrot. Þvert á móti er kveðið á um það í aðfararorðum tilskipunar EB um innlánatryggingarkerfi að fjármögnun slíkra tryggingarkerfa megi ekki stofna viðkomandi bankakerfi í hættu.

Færa má sterk rök fyrir því að með hliðsjón af fyrrnefndri tilskipun um innlánatrygginarkerfi beri ríkissjóður ekki ábyrgð á því að til sé nægt fjármagn í sjóðnum til greiðslu lágmarkstryggingar, enda hafi tilskipunin verið innleidd með réttum hætti. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða greiðsluerfiðleika eins banka eða fleiri eins og nú háttar til hér á landi. Hlutverk aðildarríkja sem tilskipunin tekur til er að sjá til þess að hún sé innleidd réttilega í landsrétt þeirra þannig að markmiði hennar sé náð. Var það einmitt gert með lögum nr. 98/1999 og stofnun sérstaks Tryggingarsjóðs. Í aðfararorðum tilskipunarinnar segir jafnframt að tilskipunin geti ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma viðurkenndu innlánatryggingarkerfi á laggirnar í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar.

Brot gegn EES-samningnum?Því hefur verið haldið fram að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar sé vegið gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins á grundvelli EES-samningsins. Í 4. gr. samningsins segir að „hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samningsins". Engin lagaskylda hvíldi á íslenska ríkinu að tryggja innlendar innstæður. Færa má rök fyrir því að sú ráðstöfun hefði átt að ná til allra innstæðueigenda óháð staðsetningu þess útibús þar sem viðkomandi aðili átti innstæðu. Það sé því um óbeina mismunun að ræða sem falli undir bannákvæði EES-samningsins um mismunun á grundvelli ríkisfangs.

NeyðarrétturUndantekningar frá framangreindum meginreglum um jafnrétti og bann við mismunun hafa verið túlkaðar þröngt. Þær geta hins vegar verið réttlætanlegar með skírskotun til ákveðinna almannahagsmuna eða sjónarmiða um neyðarrétt. Ég er þeirrar skoðunar að við núverandi aðstæður eigi slíkar undantekningar við um réttmæti þess að tryggja innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi, án þess að slíkt hið sama sé gert að því er varðar innstæður í erlendum útibúum bankanna. Það var brýn þjóðhagsleg nauðsyn að grípa til ráðstafana sem tryggja innlendar innstæður að fullu. Efnisrök leiða því til þeirrar niðurstöðu að aðgerðir sem lúta annars vegar að innlendum innstæðum og hins vegar að erlendum innstæðum þurfi ekki að hljóta sömu meðferð.

Ef innlendar innstæður hefðu ekki verið tryggðar að fullu er ljóst að mjög alvarlegir efnahagslegir erfiðleikar hefðu blasað við Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum um mjög langa framtíð. Aðgerðir sem þessar miða að því að koma í veg fyrir efnahagslegan glundroða. Það eru því veigamikil rök sem hníga að því, að sá efnahagslegi vandi sem nú er til staðar hefði orðið mun alvarlegri ef ríkisstjórnin hefði ekki tryggt innlendar innstæður að fullu. Íslenskir innstæðueigendur máttu jafnframt hafa réttmætar væntingar um að íslenska ríkið tryggði innstæður þeirra. Þær væntingar gátu innstæðueigendur í erlendum útibúum hins vegar ekki með réttu haft.

Þær ráðstafanir sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til að því er varðar innstæður í bönkunum eru lögmætar og réttlætanlegar. Skiptir þá ekki máli hvort litið er á þær sem ráðstafanir sem falli utan gildissviðs EES-samningsins eða hvort þær verði reistar á undantekningum frá samningnum með vísan til almannahagsmuna eða neyðarréttar. Það hvíla því ekki þjóðréttarlegar skuldbindingar á íslenskum stjórnvöldum um að verða við frekari kröfum sem lúta að tryggingu innstæðna í erlendum útibúum bankanna.

Höfundur er lögmaður hjá ERGO lögmönnum.




Skoðun

Sjá meira


×