Viðskipti innlent

Því miður er Ísland ekki með í gjaldeyrisskiptasamningum

Edda Rós Karlsdóttir forstöðumaður greiningar Landsbankans segir að því miður sé Íslandi ekki með í gjaldeyrisskiptasamningum eins og þeim sem Seðlabanki Bandaríkjanna hafi nú gert við hin Norðurlöndin og Ástralíu.

„Gjaldeyrisskiptasamningarnir eru til þess fallnir að greiða fyrir virkni gjaldeyrismarkaða, styrkja fjármálastofnanir viðkomandi landa og styðja þar með við fjármálastöðugleika," segir Edda Rós. „Æskilegt væri að íslenski seðlabankinn gerði slika samninga við erlenda seðlabanka."

Í nótt tilkynnti seðlabanki Bandaríkjanna að hann hefði gert gjaldeyrisskiptasamninga við seðlabanka Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Ástralíu til að auðvelda á ný skammtímafjármögnun í dollurum. Samningarnir, sem gilda til loka janúar á næsta, nema samtals 30 milljörðum dollara og þar af eiga fyrrgreind Norðurlönd aðgang að 20 milljörðum dollara eða hátt í 2.000 milljarða kr.

Samhliða tilkynningu um samninginn boðaði danski seðlabankinn útboð á 28 daga lánum í bandaríkjadölum n.k. föstudag. Í þessu felst að þarlendir bankar fá aðgang að lausafé í bandaríkjadal gegn veðum í dönskum krónum, þ.e. veðum sem almennt gilda í endurhverfum viðskiptum danska seðlabankans.

Ástralski og norski seðlabankinn hafa einnig tilkynnt um sambærileg útboð fyrir þarlenda banka, en sænski seðlabankinn segist fylgjast grannt með gjaldeyrismarkaði og að hann muni tryggja nægt framboð bandaríkjadals gerist þess þörf.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×