Viðskipti innlent

Krónan ekki veikari á þessari öld

Krónan hefur ekki verið veikari á þessari öld eftir gengisfall hennar í dag og í gær. Evran kostaði tæpar 123 krónur við lokun markaða og pundið tæpar 155 krónur.

Krónan hefur verið á hraðri niðurleið undanfarna daga og við lok markaða í dag mældist gengisvísitala íslensku krónunnar 158,9 stig, og veiktist um 3,9 prósent frá því í gær.

Frá áramótum hefur krónan veikst um 23,2 prósent miðað við opinbert gengi og hefur hún aldrei verið veikari.Haldi þessi þróun áfram má búast við að gengisvísitalan fari í fyrsta sinn yfir 160 stiga múrinn eftir helgi.

Við lokun markaða í dag var gengi bandaríkjadals rúmlega 79 krónur, evran kostar 122,4 krónur, gengi dönsku krónunnar var 16,4 krónur og sterlingspundið kostar nú nærri 155 krónur.

Veiking krónunnar hefur í för með sér aukna greiðslubyrði fyrir þá sem eru með lán í erlendri mynt. Haldi þessi þróun áfram er viðbúið að innfluttar vörur hækki í verði sem síðan skilar sér í aukinni verðbólgu, sem er nú þegar 11,8 prósent á ársgrundvelli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×