Viðskipti erlent

Austurrísk bankasamsteypa tapar 42 milljörðum kr. á Íslandi

Austurríska bankasamsteypan Erste Group Bank hefur tilkynnt að íslensku bankarnir hafi skuldað henni 300 milljónir evra eða sem svarar til um 42 milljarða kr. Verði uppgjör samsteypunnar fyrir þriðja ársfjórðung endurskoðað af þessum sökum.

Erste er þriðja stærsta bankasamsteypa Evrópu og hefur mikil umsvifa í austurhluta Evrópu auk heimalandsins. Hlutir í Erste féllu um 17% við tíðindin fyrir helgina en náðu sér aðeins á strik aftur.

Erste reyndi að róa markaðinn með tilkynningu um að tapið af íslensku bönkunum hefði þegar verið tekið til greina þegar samsteeypan gaf út yfirlýsingu um væntingar hennar fyrir þriðja ársfjórðung.

Talið er að Erste muni afskrifa strax um helminginn af fyrrgreindri upphæð. Sérfræðingar segja hinsvegar að réttast væri að afskrifa þessa skuld að fullu en slíkt myndi leiða til þess að hagnaður Erste drægist saman um 20% frá því sem væntingar voru um.

Samkvæmt tilkynningunni frá Erste dreifist skuldin á alla íslensku bankana þrjá sem nú eru komnir í þrot.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×