Viðskipti innlent

Væntingavísitala Gallup hefur aldrei verið lægri

Væntingavísitala Gallup í október var birt í morgun, og er vísitalan nú sú lægsta frá því farið var að mæla hana í mars 2001. Mælist vísitalan nú 58,9 stig, sem er 17 stiga lækkun frá síðasta mánuði.

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að sá brotsjór sem gengið hefur yfir íslenskt hagkerfi á undanförnum vikum hefur aukið svartsýni landsmanna, sem horfa nú fram á mikla kaupmáttarskerðingu og óvissar atvinnuhorfur.

Undirvísitölur fyrir mat á núverandi ástandi og atvinnuástandinu eru sömuleiðis í langlægsta gildi sínu frá upphafi mælingar. Væntingar til 6 mánaða eru hins vegar óbreyttar milli mánaða og mat á efnahagslífinu hækkar nokkuð frá september.

Síðarnefnda niðurstaðan kann að skjóta skökku við, en skýrist af því hvernig viðkomandi undirvísitala er saman sett. Hún er meðaltal af svörum við spurningum um núverandi ástand annars vegar og væntingum til 6 mánaða hins vegar. Þegar menn telja núverandi ástand jafn slæmt og raun ber vitni er eðlilegt að væntingarnar standi til þess að það verði eitthvað farið að skána eftir hálft ár.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×