Viðskipti erlent

Forstjóri Moss Bros á förum eftir að Baugur hætti við kaupin

Reiknað er með því að Philip Mountford forstjóri Moss Bros muni láta af störfum eftir að Baugur Group hætti við 40 milljón punda kaup sín á verslunarkeðjunni.

Fjallað er um málið á vefsíðu The Times í morgun. Þar kemur fram að Keith Hamill stjórnarformaður Moss Bros hafi greint frá því að hann muni láta af því starfi og samkvæmt heimildum The Times er "nær öruggt" að Mountford muni fylgja með honum.

Hlutabréf í Moss Bros tóku 12% dýfu í gærdag er tilkynnt var að Baugur hefði ákveðið að hætta við kaup sín. Gengið á hlutabréfunum hefur fallið um 30% frá áramótum og er nú í 40 pensum.

Fram kemur í The Times að Baugur hefði gert eigendum Moss Bros, Moss- og Gee fjölskyldunum tilboð í verslunarkeðjuna árið 2006 og að það hafi numið á milli 80 og 85 pensum á hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×