Viðskipti innlent

Ólafur segir það versta yfirstaðið í efnahagslífinu

Íslenskt efnahagslíf hefur gengið í gegnum erfitt tímabil að undanförnu, en það versta er yfirstaðið. Þetta er skoðun Ólafs Ísleifssonar prófessors við Háskólann í Reykjavík, en hann hélt framsögu á hádegisfundi Norden i Fokus í Stokkhólmi í gær.

 

„Ef um hættuástand var að ræða, þá var það í mars síðastliðnum, þegar markaðurinn hafði enga trú á íslensku bönkunum," segir Ólafur en greint er frá málinu á vefsíðunni Norden.org

Stærsta vandamál bankanna, samkvæmt Ólafi Ísleifssyni, hefur verið að þeir hafa ekki haft sterkan Seðlabanka að leita til við erfiðar aðstæður. Það er greinilegur veikleiki í augum markaðarins. Í mars á þessu ári urðu lánakjör bankanna óásættanleg og lánamarkaðir lokuðust.

Íslenska ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa barist við þessi vandamál í allt vor og leitað til seðlabanka annars staðar á Norðurlöndunum. Um miðjan maí gerði Seðlabanki Íslands samning við seðlabankana í Danmörku, Noregi og Svíþjóð sem felur í sér rétt til að fá 500 milljónir evra í skiptum fyrir íslenskar krónur ef hættuástand skapast.

„Þessi norræni skiptasamningur er mjög mikilvægur fyrir Ísland og breytir umhverfinu algerlega", segir Ólafur Ísleifsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×