Innlent

Rýtingur í bakið

Kormákur Geirharðsson.
Kormákur Geirharðsson.

Kormákur Geirharðsson, vert á Ölstofu Kormáks og Skjaldar, segir ekki koma til greina annað en að þeim takist að hnekkja ákvörðun borgaryfirvalda um að stytta opnunartíma Ölstofunnar og Vegamóta en bréf þess efnis barst í síðustu viku eins og greint var frá í Fréttablaðinu á laugardag. Hann er sérstaklega ósáttur við að fá bréfið í kjölfarið á fundi sem hann sat með þeim sem með þessi mál fara, þar á meðal borgarstjóra og lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.

Á fundinum var mikið rætt um aukið samstarf á milli yfirvalda og veitingamanna í borginni og því finnst Kormáki einhliða ákvörðun af þessu tagi koma á óvart. „Á þessum fundi sátu tveir eða þrír aðilar sem vissu að bréfið var á leiðinni en á það var ekki minnst, " segir hann.

„Þetta er mjög skrítið í ljósi þess að við höfum verið beðnir um aukið samstarf af hálfu lögreglu og borgar og jafnvel verið beðnir um að fjölga starfsfólki til að halda rónni í bænum," segir Kormákur. „Við erum ekkert ofsalega hrifnir af því að vera að sýna þennan samstarfsvilja og fá síðan rýtinginn í bakið." Hann segir eðlilegra að lögregla sýni þeim biðlund í málum sem þessum og gefi þeim færi á að laga það sem þarf að laga áður en gripið er til svo harkalegra aðgerða.

Kormákur segir að Umhverfis- og samgöngusvið borgarinnar hafi tekið þá ákvörðun að stytta opnunartíma staðanna tveggja frá hálf sex til þrjú. Þá ákvörðun segir Kormákur byggða á skýrslum lögreglu en að aðeins sé horft til fjölda kvartana sem berast vegna staðanna en ekki til skýrslna sem lögreglumenn gera á vettvangi. „Lögfræðingur okkar er búinn að óska eftir þessum skýrslum ," segir Kormákur en hann segir að í samtölum sem hann hafi átt við lögreglumenn hafi komið fram að í langflestum tilvikum hafi lögregla komist að þeirri niðurstöðu að hávaði á stöðunum hafi ekki verið eins mikill og sá sem kvartaði vildi meina. Hann segir einnig að yfirleitt sé um sama nárgrannan að ræða sem er greinilega ósáttur við vertshúsin á Vegamótastíg.

Kormákur segir heldur ekki ganga að örfáir nágrannar geti haft svo mikil áhrif á afkomu og haf fjölda fólks. „Við erum að reyna að reka fyrirtæki hérna með tugi manna í vinnu. Ég sé einhvern veginn ekki fyrir mér að þeir taki þriðja kerskálann úr sambandi í Straumsvík vegna þess að einhver kona hringir og kvartar yfir því að það hafi fallið á þvottinn hennar," segir Kormákur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×