Viðskipti innlent

Sparisjóðabankinn fær að öllum líkindum frest hjá Seðlabankanum

Sparisjóðabankinn, áður Icebank, fær að öllum líkindum frest frá Seðlabankanum til að setja fram rúmlega 60 milljarða kr. í auknum veðum til Seðlabankans. Lokadagur til að setja fram veðin er á morgun, miðvikudag.

Agnar Hansson forstjóri Sparisjóðabankans segir að hann sé bjartsýnn á lausn málsins. "Viðræður hafa verið í fullum gangi og ég á von á lendingu í málinu á næstu dögum," segir Agnar.

Fram kemur í máli Agnars að auk viðræðna við fulltrúa Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar hafi Sparisjóðabankinn einnig rætt við erlenda lánadrottna sína. "Við erum í þeirri stöðu að vera eini íslenski bankinn þar sem erlend greiðslumiðlun virkar og því hefði það verið mjög slæmt fyrir sparisjóðina í landinu ef Seðlabankinn hefði gengið hart fram í kröfum sínum um aukin veð," segir Agnar.

"Við erum langt komnir með að móta ákveðna áætlun um hvernig Sparisjóðabankinn muni vinna sig úr þeim vanda sem blasir við," segir Agnar. "Mikilvægast í þeim efnum er að fá frest hjá Seðlabankanum svo tími gefist til að klára þá vinnu."

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×