Viðskipti innlent

Skuldatryggingarálagið komið yfir 1.000 púnkta

Skuldatryggingarálag Kaupþings og Glitnis er komið yfir 1.000 púnkta en það hefur hækkað mjög ört á síðustu tveimur vikum. Álagið hjá Landsbankanum er 635 púnktar en fór lægst í 193 fyrir tveimur mánuðum.

Á einföldu máli þýðir þetta að Kaupþing og Glitnir þurfa nú að borga 10% tryggingarálag, það er 100 kr. af hverjum 1.000 kr, sem þeir fá að láni erlendis. Þetta er fyrir utan vexti og annan kostnað.

Blaðið Financial Times gerir þetta himinhá álag að umtalsefni sínu í dag. Þar segir m.a. að greinendur hafi nú vaxandi áhyggjur af stöðu íslensku bankana. Þeir hafi notfært sér ódýrt erlend lánsfé í miklum mæli til vaxtar og því komist í viðkvæma stöðu þegar lánsfjármarkaðurinn þornaði upp.

Þar að auki smitar hið háa tryggingarálag út frá sér. Að sögn FT er engin grunnástæða fyrir því að það sé svona hátt. Viðskiptavinir bankana sjá það hinsvegar sem rautt aðvörunarljós.

Fram kemur í FT að suma greinendur gruni að seljendur að skuldatryggingarálagi séu að leika það sem kallað er "pump and dump" núna skömmu fyrir ársfjórðungsuppgjör íslensku bankana.

Með "pump and dump" er einfaldlega átt við að aðilar eins og t.d. vogunarsjóðir og spákaupmenn sem sýsla með skuldatryggingarálag tala eða "pumpa" álagið upp og selja það, eða "dumpa" því síðan er það kemst í hæstu hæðir.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×