Innlent

Lífeyrisréttindi skerðast vegna kreppunnar

Hrafn Magnússon er framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða
Hrafn Magnússon er framkvæmdastjóri Landssambands lífeyrissjóða

Eignir lífeyrissjóða landsins munu rýrna vegna ástands á fjármálmörkuðum og neyðarlaga Alþingis sem þýðir að lífeyrisréttindi skerðist á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu Landsamtaka lífeyrissjóða.

Stjórn samtakanna fundaði í dag um aðgerðir stjórnvalda og segir í tilkynningunni að samtökin hafi skilning á aðgerðunum enda hafi í raun blasað við neyðarástand að óbreyttu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir fjölskyldur, fyrirtæki og allt fjármála- og efnahagskerfi landsmanna.

Þá segja samtökin að þau hafi komið að viðræðum við stjórnvöld um aðgerðir um helgina, með því að flytja allt að helming erlendra eigna sinna til landsins til að styrkja íslenska krónu. Engir samningar þar að lútandi hafi hins vegar átt sér stað og ef ríkisstjórnin sjái ástæðu til að taka þennan þráð upp við lífeyrissjóðina á nýjan leik muni forystusveit Landssamtaka lífeyrissjóða fjalla um erindið í ljósi þess að allar aðstæður hafa gjörbreyst með neyðarlögunum frá Alþingi og afleiðingum þeirra. „Lífeyrissjóðir áskilja sér þannig allan rétt til að fjalla um málið á nýjum forsendum og komast að niðurstöðu í samræmi við þær," segir í tilkynningunni.

Þá segjast samtökin gera sér grein fyrir að íslensk þjóð glími við mikinn vanda og lífeyrissjóðir, líkt og aðrir, taki þátt í aðgerðum sem miða að því að komast út úr þrengingunum. Landssamtök lífeyrissjóða beini því þannig til stjórna og stjórnenda lífeyrissjóða í landinu að koma til móts við lántakendur eins og aðstæður leyfa hverju sinni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×