Viðskipti innlent

Ólíðandi að sveitarfélög fái ekki til sín hluta fjármagnstekjuskatts

Það er ólíðandi að fólk geti sent börn sín í skóla, notað heilsugæslu og nýtt sér þjónustu sveitarfélaga án þess að borga útsvar, segir varaformaður fjárlaganefndar, Kristján Þór Júlíusson.

Þeir sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt borga ekkert til sveitarfélaga. Ekki er vitað hversu stór sá hópur er.

Um 25 milljarðar króna af skatttekjum einstaklinga í landinu renna óskiptir til ríkissjóðs. Þessir milljarðar eru skattur af fjármagnstekjum - skattstofn sem hefur tútnað út á síðustu árum, var rétt um 90 milljónir fyrir um áratug en er í dag kominn á þriðja tug milljarða. Árum saman hafa sveitarfélögin girnst hlutdeild í þessu fé og þær raddir orðið æ háværari eftir því sem fjármagnstekjuskatturinn hefur hækkað.

Skiptar skoðanir hafa verið í liði ríkisstjórnarflokkanna hversu óeðlilegt þetta er og í fyrra aftók fjármálaráðherra það með öllu að veita sveitarfélögum hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum. Það ætti hins vegar að vera grundvallaratriði að allir greiði skatt til sveitarfélagsins, að mati Kristjáns.

Embætti ríkisskattstjóra gat ekki upplýst fréttastofu í dag um hversu margir greiða eingöngu fjármagnstekjuskatt, en ljóst er að megnið af þeim rynni til Reykjavíkur ef sveitarfélög fengju einfaldlega hlutfall af skattinum en Kristján vill sjá aðra útfærslu til að dreifa fénu jafnar um landið.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×