Viðskipti erlent

Refresco kaupir Sciffers Food í Hollandi

Refresco hefur keypt gosdrykkjaframleiðendann Sciffers Food í Hollandi. Seljandinn er Bavaria N.V.. Refresco er að 49%% leyti í eigu Stoða.

Í tilkynningu um málið á heimasíðu Refresco segir Hans Roelofs stjórnarformaður félagsins að kaupin gefi þeim tækifæri til að breikka markaðssvæði sitt í Evrópu. Þar að auki muni þjónusta þeirra við viðskiptavini aukast.

Velta Schiffers Foods á yfirstandandi rekstrarári er áætluð um 8 milljarðar króna.

Árið 2006 leiddu Stoðir (þá FL Group) hóp fjárfesta í kaupum á Refresco. Frá upphafi hefur markmið kaupanna verið að vinna að uppbyggingu Refresco með innri vexti og yfirtökum á félögum sem starfa á nýjum mörkuðum sem og á heimamörkuðum félagsins.

Síðastliðin tvö ár hafa Stoðir aðstoðað Refresco við fjórar yfirtökur en Refresco hefur keypt Kentpol í Póllandi, Histogram í Bretlandi, Sun Beverages Company í Frakklandi, Hollandi og Belgíu og Nuits Saint-Georges í Frakklandi.

Refresco er stærsti framleiðandi Evrópu á sviði drykkjarvara undir eigin merkjum viðskiptavina. Félagið var stofnað árið 2000 og starfrækir nú 18 verksmiðjur víðs vegar um Evrópu þar sem vinna um 2.200 starfsmenn. Árið 2007 námu tekjur félagsins um 950 milljónum evra, sem jafngilti um 87 milljörðum króna m.v. gengi evru í árslok 2007.

 

 














Fleiri fréttir

Sjá meira


×