Viðskipti innlent

Ole Vagner kaupir aftur

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ole Vagner
Ole Vagner
Fasteignaþróunarfélagið Landic Property hefur selt um þriðjung af eignasafni sínu í Svíþjóð til Ole Vagner, fyrrum forstjóra og eiganda Keops.

Danska viðskiptablaðið Börsen greindi frá þessu fyrir helgi, en þar kemur fram að með kaupunum hafi Vagner viljað forða hugsanlegu milljarða tapi. Fasteignirnar eru sagðar tæpra fimm milljarða danskra króna virði, eða tæplega 110 milljarða króna miðað við skráð gengi í gær.

„Ekki eru nema tvö ár síðan Keips keypti Kungsleden-eignamöppuna [sænsku] fyrir 5,4 milljarða,“ segir Börsen. En Stoðir, sem síðar Landic Property, keyptu Keops snemmsumars í fyrra.

„Við létum nægja að tilkynna þetta Kauphöllinni í Danmörku, þar sem þetta hefur engin áhrif á eigendur hér,“ segir Páll Benediktsson, talsmaður Landic Property.

Hann segir að við söluna létti nokkuð á rekstri félagsins þar sem dragi úr afborgunum af lánum, en viðskiptin séu í mikilli við samvinnu við Ole Vagner.

„Hann var stór eigandi í þessu og afráðið að betra væri að hann tæki þetta yfir í bili,“ segir Páll, en í sölusamningnum er ávæði um að Landic Property fáum hluta af hagnaði selji Vagner eignirnar, auk þess sem félagið á endurkauparétt á hlutnum fram í lok janúar.

„Þannig að við sjáum til hvernig málin þróast.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×