Viðskipti innlent

Atvinnulausir orðnir meir en níu þúsund talsins

Nú um miðjan desember stendur fjöldi atvinnulausra í rúmlega níu þúsund manns en það svarar til um 5,5% atvinnuleysis. Á aðeins tveimur mánuðum hefur ástandið versnað jafn mikið og á tveimur árum á erfiðleiktímabilinu í upphafi síðasta áratugar.

Þetta kemur fram á vefsíðu ASÍ. Þar segir að miðað við tölur um skráð atvinnuleysi frá lokum nóvember koma flestir atvinnulausra úr mannvirkjagerð, þá úr verslun, iðnaði, flutningastarfsemi og ýmissi þjónustustarfsemi. Sömu tölur sýna einnig að langflestir atvinnulausra koma úr yngstu aldurshópunum frá 20 ára aldri. Alls voru 972 erlendir ríkisborgarar án atvinnu í lok nóvember eða um fjórðungur allra atvinnulausra.

Efnahagsþrengingar hafa margvísleg áhrif á vinnumarkaðinn, m.a. vinnutíma, atvinnuþátttöku og ákvarðanir um búferlaflutninga. Þegar sjást skýr merki um aukinn brottflutning erlendra starfsmanna. Í nýjustu vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar frá þriðja ársfjórðungi í ár mátti einnig sjá ákveðin merki um kólnun efnahagslífsins. Þannig dró örlítið úr atvinnuþátttöku frá sama tíma árið áður, hlutfall starfandi minnkaði og atvinnuleysi jókst.

Horfur um atvinnuástand fara enn versnandi. Skýrustu vísbendingarnar um þetta eru fjöldi tilkynntra uppsagna. Alls hefur hátt í 5.000 manns verið sagt upp á árinu með hópuppsögnum. Stærstur hluti þeirra barst í október og miðað við 1-3 mánaða uppsagnarfrest má því búast við mikilli aukningu atvinnulausra a.m.k. fram í febrúar á næsta ári.

Það mun draga úr áfallinu að stór hluti erlendra starfsmanna mun líklega hverfa heim á leið fyrr en seinna svo og að margir munu nýta sér möguleika til frekara náms nú þegar atvinnuhorfur versna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×