Viðskipti innlent

SPRON tapaði 8,4 milljörðum

Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON.
Guðmundur Hauksson forstjóri SPRON.

SPRON skilaði 8,4 milljarða króna tapi á fyrsta ársfjórðungi, en uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung var birt á miðvikudaginn. Þetta er einum milljarði króna meira tap en Greiningadeild Kaupþings hafði gert ráð fyrir. Til samanburðar var 4,7 milljarða króna hagnaður á sama tíma í fyrra, eftir því sem fram kemur í Hálf-fimm fréttum Kaupþings.

Greiningadeild Kaupþings segir að mikill taprekstur SPRON á fyrsta ársfjórðungi verði fyrst og fremst skýrður með gengistapi sparisjóðsins á beinum og óbeinum hlut í Exista. Á nýliðnum fjórðungi hafi gengistapið af Exista numið 8,2 milljörðum króna. Að sama skapi hafi tap á veltubók verið um tveir milljarðar króna en á fjórðungnum seldi bankinn öll hlutabréf í veltubók og færði sig yfir í skuldabréf í staðinn.

„Hreinar vaxtatekjur og þóknanatekjur voru í takt við spá Greiningardeildar en hins vegar var rekstrarkostnaður ívið hærri en við höfðum gert ráð fyrir. Rekstrarkostnaður dróst engu að síður saman um 18% frá fjórða ársfjórðungi 2007 og virðist sem stjórnendur séu að ná góðum tökum á kostnaðinum en rekstrarkostnaður er nú lægri en undanfarna þrjá fjórðunga. Virðisrýrnun rúmlega tvöfaldaðist frá síðasta fjórðungi sem helgast af stærra útlánasafni og varkárni," segir í Hálf-fimm fréttum Kaupþings.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×