Viðskipti innlent

Ekki skýrar vísbendingar um samkeppnisbrot á eldsneytismarkaði

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. MYND/GVA

Samkeppnisyfirvöld fylgjast með eldsneytismarkaðinum hér á landi og ekki eru skýrar vísbendingar um það að svo stöddu að ástæða sé til að ætla að olíufélögin brjóti samkeppnislög. Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um álagningu olíufélaganna og hækkanir þeirra og lækkanir á eldsneyti, en jafnan þegar eitt félagið hefur breytt verði hafa hin fylgt á eftir. Þá sagði Runólfur Ólafsson, formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda, í Fréttablaðinu í dag að álagning olíufélaganna hefði aukist um sex prósent að undanförnu. Þessu hafna forsvarsmenn olíufélaganna.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir í samtali við Vísi að eftirlitið fylgist með þessum markaði og það hafi þegar beitt sér á honum. Þar vísar Páll Gunnar til rannsóknar á ólöglegu samráði olíufélaganna fyrr á öldinni. „Það eru hins vegar ekki skýrar vísbendingar að svo stöddu um að ástæða sé til að ætla að verið sé að brjóta samkeppnislög á þessum markaði," segir Páll Gunnar. Hann minnir á að fólk geti komið ábendingum til Samkeppniseftirlitsins í gegnum heimasíðu þess, samkeppni.is. Þar sé hægt að lesa hvað felist í brotum á samkeppnislögum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×