Viðskipti innlent

Skilur vel vonbrigði hluthafa FL Group

Jón Sigurðsson, forstjóri FL Group, skilur það vel að vonbrigði séu hjá hluthöfum með það hvernig hlutabréfaverð hafi þróast hjá félaginu en það verði að horfa á það að hlutabréf hafi almennt lækkað á markaði.

Jón var gestur í hádegisviðtali Markaðarins í dag. Um tæplega 48 milljarða króna tap félagsins á fyrsta ársfjórðungi sagði Jón að árangurinn væri ekki ásættanlegur en hann litaðist af því umhverfi sem verið hefði. Það hefðu gríðarlegar niðursveiflur átt sér stað á markaði, þar á meðal á stórum hlut félagsins í Glitni.

Félagið hefur brugðist við tapinu undanfarin misseri með því að selja hluti sína í ýmsum félögum eins og Commerzbank og Finnair. Aðspurður sagði Jón að til stæði að selja fleiri eignir. Við breytingar á síðustu mánuðum hefði verið stefnt að því að minnka markaðsáhættu félagsins og endurskipuleggja eignir.

„Við höfum unnið eftir því plani og ég geri ráð fyrir, já, að það verði áfram einhver endurskipulagning í eignasafninu og það einfaldað og áhersla lögð fyrst og fremst á þessar þjár kjarnaeignir okkar í Glitni, TM og Landic," segir Jón. Meðal þess sem félagið íhugar að selja er fasteignafélagið Eik og ýmsar óskráðar eignir. Jón segir félagið standa vel þrátt fyrir mikla ágjöf að undanförnu. Búið sé að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir frekara tap.

Aðspurður hvað hann vildi segja við þá sem hefðu lagt sparnað sinn í FL Group og væru nú fúlir yfir gengi þess sagði Jón að hann skildi vel að það væru vonbrigði hvernig hlutabréfaverð hefði þróast. Það yrði að líta á það hvernig þróun hefði verið á markaði. Félagið hefði vissulega lækkað mikið en „ég held að það sé nú ekki mikill ágreiningur um það að það sé rétt ákvörðun að afskrá félagið. Við höfum alla vega ekki orðið varir við það að þau sjónarmið hafi verið sérstaklega á lofti," sagði Jón. Hann benti á hluthafar gætu selt hlut sinn og fengið skráð bréf í Glitni. Félögin væru tengd og hann teldi að peningum væri vel varið þar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×