Innlent

Dómur Hæstaréttar í máli hjúkrunarfræðings kom stjórnendum Landspítala á óvart

Konan starfaði á deild 33C á Landspítala við Hringbraut.
Konan starfaði á deild 33C á Landspítala við Hringbraut.

Dómur Hæstaréttar í máli konu sem stefndi Landspítalanum vegna flutninga á milli deilda kom stjórnendum spítalans á óvart.

Konan hafði farið með karlmanni sem starfaði á sömu deild úr samkvæmi sem haldið var á heimili deildarstjóra þeirra á haustmánuðum árið 2006. Nokkrum dögum eftir samkvæmið sakaði maðurinn konuna um kynferðislega áreitni. Hún var þá færð á milli deilda. Hún gat ekki unað við þá ákvörðun og stefndi því spítalanum. Héraðsdómur dæmdi ákvörðunina ógilda og Hæstiréttur staðfesti þann dóm í gær.

Óvíst hvort breyta þurfi verklagsreglum

Oddur Gunnarsson, lögmaður hjá starfsmannaskrifstofu Landspítalans, segir þó ekki víst hvort dómurinn þýði að breyta þurfi einhverjum verklagsreglum hjá starfsmannaskrifstofunni. „Við eigum eftir að ráðfæra okkur við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Við viljum fá þeirra afstöðu," segir Oddur. Skrifstofa ráðuneytisins muni svo væntanlega fara yfir hvort breyta þurfi verklagi. Oddur segir dóminn hafa komið svolítið á óvart því Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að réttur starfsmanns og vinnuveitanda falli undir stjórnsýslulögin.

Dómurinn byggir á lögum um stjórnsýslurétt

„Við höfðum gengið út frá því að stjórnendur væru að vinna á grundvelli stjórnunarréttar og hefðu þess vegna svigrúm til þess að meta þarfinar frá degi til dags," segir Oddur. Þannig ættu stjórnendur að geta vegið og metið aðstöðuna með tilliti til þess að svona starfsemi gæti gengið snuðrulaust, til dæmis þannig að samskiptamál starfsmanna trufluðu ekki starfsemina.

Oddur segir hins vegar að dómur Hæstaréttar virðist í fljótu bragði benda til þess að beita hefði átt aðferðum stjórnsýsluréttar. „Og það er töluvert mikill munur á þeirri réttarstöðu," segir Oddur. Hann segir það vera stóru tíðindinn sem dómurinn beri með sér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×