Viðskipti innlent

Vill bjóða út stjórn Íslands vegna hæfileikaleysis ráðamanna

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Novators, vill að stjórn Íslands verði boðin út vegna hæfileikaleysis ráðamanna við að glíma við fjármálakreppuna sem nú ríkir í landinu.

Þetta kemur fram í skrifum hins virta dálkahöfundar The Times, Bronwen Maddox, í dag. Þar fjallar Maddox um ástandið á Íslandi undir fyrirsögninni „Bless, íslensku bankar, en takk fyrir allan fiskinn" eða "So long Iceland´s banks, but thanks for all the fish" sem mun vera tilvísun í eina af bókum Douglas Adams.

Í greininni veltir Maddox því fyrir sér hvort Ísland sé of smátt til að vera sjálfstæð þjóð og hvort þjóðin eigi að varpa frá sér sjálfstæði sínu og sameinast Evrópusambandinu og taka upp evruna.

Maddox ræðir við ýmsa um fjármálakreppuna á Íslandi, upphaf hennar og afleiðingar. Meðal annarra ræðir hún við Lars Christensen sérfræðing hjá Danske Bank sem segir að ráðamenn hafi verið illa undirbúnir fyrir kreppuna og haft hörmulega stjórn á atburðarrásinni. Lars segir að pólitískri menningu landsins sé að hluta til um að kenna.

Maddox segir að það myndi koma sér á óvart ef Íslendingar könnuðu ekki aðild að ESB eftir að það versta er yfirstaðið.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×