Viðskipti innlent

Forstjóri B&L segir fyrirtækið í ágætis málum

Bílar á sölu hjá B&L
Bílar á sölu hjá B&L

Haukur Guðjónsson forstjóri B&L segir fyrirtækið ekki eiga við frekari erfiðleika í rekstri en aðrir á markaðnum. Hann segir sögur þess efnis að rekstri verði hætt hjá fyrirtækinu úr lausu lofti gripnar. Þvert á móti beri fyrirtækið sig vel og hafi selt ágætlega það sem af er ári.

„Það hefur verið þungur rekstur hjá öllum þeim sem starfa á þessum markaði enda hefur verið mikill samdráttur í sölu á nýjum bílum eins og fram hefur komið," segir Haukur.

Haukur vill meina að sögur þess efnis að bílaumboðin hafi verið að senda bíla úr landi séu margar hverjar töluvert ýktar.

„Þetta snýst fyrst og fremst um að afturkalla pantanir á bílum sem eru komnir í ferli og eru á leiðinni einhversstaðar. Það er þannig að okkar eignarhaldsfélag á líka Ingvar Helgason og þar er það sama uppi á teningnum, þetta eru samtals um 60 bílar."

Haukur segir að markaðurinn hér á landi sé frábrugðinn mörkuðum víða í Evrópu því hér séu menn meira í sjálfskiptum díselbílum öfugt við það sem gerist þar.

„Það er því ekkert auðvelt að senda bíla úr landi, nema það sé eftirspurn eftir þeim."

Haukur viðurkennir að nú reyni á fyrirtæki þar sem ytri aðstæður séu erfiðar með veikingu krónunnar og háu vaxtastigi.

„Við berum okkur samt vel og teljum okkur vera með ágætis stöðu á okkar markaði, við höfum einnig selt ágætlega það sem af er ári."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×