Viðskipti innlent

Exista tapar fimm milljörðum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, segir að á tímum umróts á alþjóðamörkuðum hafi tekist að tryggja fjárhagsstyrk og lausafé félagsins.
Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, segir að á tímum umróts á alþjóðamörkuðum hafi tekist að tryggja fjárhagsstyrk og lausafé félagsins. MYND/Anton
Bókfært tap hluthafa fjármálaþjónustufyrirtækisins Existu á fyrsta ársfjórðungi nemur 43,8 milljónum evra, eða tæplega 5,1 milljarði króna miðað við gengi evru í gær. Félagið birti uppgjör sitt eftir lokun markaða í gær.

Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður félagsins 640,7 milljónum evra. Tap fjórðungsins skýrist af verðbreytingum á skráðum eignum félagsins. Á fyrsta ársfjórðungi í fyrra hækkuðu skráðar eignir um 38,2 milljónir evra, en rýrnuðu á þessu ári um sem nemur 173,2 milljónir evra.

Heildareignir félagsins nema hins vegar 7,4 milljörðum evra, eða tæpum 858 milljörðum króna, og lækkuðu um 8,1 prósent í fjórðungnum. Eigið fé Existu nemur 2,3 milljörðum evra (267 milljörðum króna) og handbært fé nemur 485 milljónum evra (56,2 milljörðum króna) við lok fjórðungsins. Tryggt lausafé er sagt nægilegt til að mæta endurfjármögnun félagsins þar til í desember 2009.

Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, segist sáttur við útkomu fjórðungsins, sem reynst hafi fyrirtækjum í fjármálaþjónustu sérlega erfiður. Hann segir að þrátt fyrir neikvæða afkomuhafi Exista staðið vörð um „sterkar fjárhagslegar undirstöður, öfluga lausafjárstöðu og framúrskarandi eignir".






Fleiri fréttir

Sjá meira


×