Innlent

Deildu um áhrif umhverfismats vegna Bakkaálvers

MYND/Pjetur
Utanríkisráðherra sakaði Framsóknarflokkinn um þráhyggju í tengslum við umfjöllum um heildstætt umhverfismat fyrir Bakkaálver á Alþingi í dag.

Valgerður Sverrisdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, spurði ráðherra út í málefni álversins og rannsóknir á orkuöflun, meðal annars hvort framkvæmdaaðili gæti haldið áfram með tilraunaboranir þrátt fyrir að heildstætt umhverfismat færi fram. Benti hún á að umhverfisráðherra hefði sagst ekki sjá neitt sem gæti hindrað það og spurði Valgerður hvað utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar segði um það. Enn fremur hvort Samfylkingin hygðist bera ábyrgð á því að framkvæmdum vegna Bakkaálvers yrði frestað um ár þar sem ekki væri hægt að fara í nauðsynlegar rannsóknir.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra svaraði því til að einhver þráhyggja einkenndi málið hjá Framsóknarflokknum. Það væri búið að spyrja bæði umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra um málið og svör þeirra væru skýr. Sagði Ingibjörg Sólrún að hægt væri að finna leiðir til fyrir rannsóknarboranir en þær þyrftu að sæta umhverfismati. Skipulagsstofnun væri að fara yfir málið með framkvæmdaaðilum og benda á færar leiðir.

Varaformaður Framsóknarflokksins sagði ráðherra þá kveinka sér þegar þetta mál bæri á góma vegna þess að Samfylkingin væri að klúðra málinu. Svar ráðherra um að heildstætt umhverfismat ætti ekki að tefja málið væri ekki fullnægjandi og ekki væri hægt að bjóða upp á einhverjar krókaleiðir fram hjá úrskurði umhverfisráðherra. Ítrekaði hún spurningu sína um hvort Samfylkingin hygðist seinka málinu um ár.

Utanríkisráðherra kom þá aftur í pontu og sagðist ekki kveinka sér undir umræðunni þótt hún benti á þær augljósu staðreyndir hversu mikilli þráhyggju Valgerður væri haldin í málinu. Ítrekaði Ingibjörg Sólrún að hægt væri að finna leiðir til að rannsóknir gætu farið fram en rannsóknarborholur þyrftu að fara í ákveðið umhverfismat, eins og allar slíkar framkvæmdir, án þess að heildarmatið væri tekið undir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×