Innlent

Segir pólitíska sérhagsmuni Browns ráða ferðinni

sev skrifar
„Okkur blöskraði þessi klaufaháttur að koma sjónarmiðum Íslendinga í fjölmiðla," segir Ólafur Elíasson, tónlistamaður og einn aðstandenda síðunnar indefence.is. Hann segist gáttaður á því að Gordon Brown hafi komist upp með það ótrúlega „spin" að beita hryðjuverkalögum gegn íslenskum bönkum. Gjörningur sem hafi verið til þess eins að bjarga hans pólitíska skinni.

Á síðunni er að finna undirskriftalista og ávarp til bresku þjóðarinnar, þar sem málstaður Íslendinga er tíundaður.

„Það var klúður að takast ekki á við þessa hönnuðu atburðarrás sem Gordon og Darling settu af stað," segir Ólafur og bætir við að vegna þess hve lítið heyrðist frá stjórnvöldum gangi breskur almenningur með þá hugmynd að við skömmumst okkar.



Forvígismenn undirskriftasöfnunarinnar hafa flestir búið og starfað í Bretlandi. „Við sem þekkjum Breta vitum að þeim myndi líða mjög illa ef heimurinn sæi þá sem „bullies"," segir Ólafur, sem vonar að viðhorf bresks almennings breytist þegar hann áttar sig á því að forsætisráðherra þeirra hefur í eigingjörnum tilgangi pínt litla vinaþjóð.

Og hópurinn ber engan kala til hins almenna Breta. „ Við elskum Bretland. Við höfum átt yndislegar stundir í Bretlandi og eigum mikið af yndislegum breskum vinum," segir Ólafur. „Að láta pólitíska sérhagsmuni Gordons Browns eyðileggja samband okkar Breta kemur ekki til greina."

Við síðustu athugun höfðu tæplega tíu þúsund manns skráð sig á undirskriftalistann. Ólafur segir markmiðið vera að ná helmingi þjóðarinnar á listann, og koma málinu í heimspressuna. Fyrirhugað er svo að afhenda breskum stjórnvöldum yfirlýsinguna og undirskriftalistann í viðurvist fjölmiðla til að vekja athygli á málstað Íslendinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×