Viðskipti innlent

Enn frestar Seðlabankinn útboði á ríkisbréfum

Seðlabankinn tilkynnti í morgun að útboði ríkisbréfa, sem fyrirhugað var að halda á morgun, hefði verið frestað. Er þetta annað útboðið í röð sem frestað er, en samkvæmt áætlun átti að gefa út nýtt 2ja ára ríkisbréf að nafnvirði 6 milljarða kr. í nóvembermánuði.

 

Greining Glitnis fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að viðskiptavakar á skuldabréfamarkaði séu nú aðeins fjórir, og kann að vera að Seðlabankinn vilji bíða átekta uns búið er að ganga frá viðskiptavakt nýju bankanna áður en hinum nýja ríkisbréfaflokki er ýtt úr vör.

Þann 12. desember er gjalddagi RIKB 08 1212 ríkisbréfaflokksins. Stærð flokksins er í grunninn u.þ.b. 52 milljarðar kr., en að viðbættum lánum til viðskiptavaka má gera ráð fyrir að heildarstærð hans sé rétt um 100 milljarðar kr..

Stór hluti þessara bréfa er í eigu erlendra fjárfesta. Líklegt er því að Seðlabankinn vilji auka framboð á stuttum ríkisbréfum, eða öðrum auðseljanlegum ríkistryggðum bréfum á borð við innstæðubréf, verulega fyrir þennan gjalddaga til að bjóða þeim fjárfestum sem eiga ofangreindan flokk nýja fjárfestingarkosti á gjalddaga, ekki síst í því skyni að tempra útflæði út úr krónu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×