Viðskipti erlent

Allt að 800 metra biðraðir eftir nýja iPhone-símanum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Gloppur í hugbúnaði nýja iPhone-símans frá Apple og takmarkað upplag hans í mörgum verslunum sló marga kaupendur út af laginu í gær þegar sala á gripnum hófst í 22 löndum en hans hefur verið beðið með eftirvæntingu síðan í vor þegar fréttir tóku að berast af nýjum iPhone-síma.

Búist er við að á fimmtu milljón iPhone síma seljist á fyrsta ársfjórðungnum eftir markaðssetningu símans og í Tókýó voru komnar allt að 800 metra langar raðir fyrir utan símaverslanir í gær.

Bilun í iTunes-þjónustu Apple varð til þess að mörgum nýbökuðum eigendum símans var ekki unnt að sækja sér tónlist og myndbönd en iTunes er stafrænt margmiðlunarforrit sem notað er til að sækja, spila og flokka stafræna tónlist og myndbönd. Í Bretlandi heyrðust óánægjuraddir um að svokölluð sign-up þjónusta væri með hægvirkasta móti.

Ekki náðist að standa undir eftirspurninni en í Japan, Þýskalandi, Kanada og Mexíkó og víða í Bandaríkjunum seldust símarnir upp á fyrsta degi í mörgum verslunum, áhugasömum kaupendum til ama. Símaverslun í Madrid brá á það ráð að gefa viðskiptavinum í biðröð við verslunina stuttermaboli til að skýla þeim fyrir miskunnarlausu sólskini en þar fór hiti vel yfir 30 gráður í gær.

Bloomberg greindi frá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×