Viðskipti innlent

Segir sölu Versacold algjört forgangsatriði fyrir Eimskip

Greining Glitnis segir að salan á Versacold Atlas sé algjört forgangsatriði fyrir Eimskip. Eigið fé Eimskip hefur rýrnað hratt undanfarna fjórðunga og var í lok þriðja ársfjórðungs 272 milljónir evra, eða rúmlega 35 milljarðar kr. og eiginfjárhlutfallið 13,7%.

Í Morgunkorni greiningar Glitnis segir að í kjölfar þess að ábyrgðin vegna XL Leisure Group féll á Eimskip er ljóst að eigin fé félagsins mun lækka frekar. Hve mikil sú lækkun verður fer þó alfarið eftir því hversu mikið Eimskip fær upp í kröfur vegna ábyrgðarinnar. Nettó vaxtaberandi skuldir nema 1.177 milljóum evra eða nær 150 milljörðum kr..

„Brýnasta verkefni Eimskip er að grynnka á þessum skuldum. Stjórnendur félagsins eru vel meðvitaðir um það og hefur félagið nú hafið formlegt söluferli á Versacold Atlas í samstarfi við kanadíska banka," segir í Morgunkorninu. „Salan gæti þó dregist á langinn vegna lakari aðgangs að fjármagni og þá er ekki ólíklegt að verðið sem Eimskip fái nú fyrir Versacold Atlas verði lægra en ef salan færi fram á betri tíma. Engu að síður er sala Versacold algjört forgangsatriði fyrir Eimskip og mikilvægt að hún klárist sem fyrst."

Eimskip hefur einnig til skoðunar sölu á öðrum eignum félagsins sem ekki tilheyra grunnrekstri. Í tilkynningu segir að Eimskip hafi nú þegar ráðist í hagræðingaraðgerðir á borð við fækkun starfsfólks, aðhald í ráðningum og hagræðingu í siglingakerfi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×