Viðskipti innlent

IMF boðar að áfram verði takmarkanir á útflæði gjaldeyris

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) boðar að áfram verði takmarkanir á útflæði gjaldeyris í náinni framtíð og aðhaldssama gjaldeyrisstefnu. Þetta á að draga úr falli krónunnar þegar hún verður sett á flot á næstunni.

Framangreint kemur fram í fréttatilkynningu sem IMF sendi frá sér í gærkvöldi í framhaldi af því að sjóðurinn samþykkti að lána Íslandi rúmlega 280 milljarða kr. í gærkvöldi.

Í tilkynningunni segir John Lipsky aðstoðarforstjóri IMF að fyrsta forgangsmálið sé að koma á stöðugleika á gengi krónunnar til að draga úr neikvæðum áhrifum kreppunnar á framleiðslu og atvinnustig.

"Til að ná þessu markmiði felur áætlunin í sér aðhaldssama gengisstefnu og áframhaldandi takmarkanir á útflæði gjaldeyris í náinni framtíð," segir Lipsky sem reiknar með að viðsnúningur í vöruskiptum landsins þar sem innflutningur dregst mikið saman muni styðja við gengi krónunnar.

Lipsky ræðir síðan um enduruppbyggingu bankakerfisins þar sem m.a. á að meta eignir, hámarka endurheimt andvirðis þeirra, auka við eftirlit og tryggja að jafnræði gildi meðal kröfuhafa.

Fram kemur að nánasta framtíð verður erfið. Alvarleg og djúp kreppa muni ríkja á Íslandi á næsta ári og 2010 en síðan fari landið að rétta úr kútnum.

Lipsky segir að langtímahorfur fyrir Ísland séu góðar, grundvöllur þjóðfélagsins sé traustur, vinnuaflið vel menntað, tækifæri til fjárfestinga góð og mikið af náttúruauðlindum til staðar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×