Körfubolti

Snæfell segir upp samningum við erlenda leikmenn og þjálfara

Elvar Geir Magnússon skrifar
Úr leik hjá Snæfelli síðasta tímabil.
Úr leik hjá Snæfelli síðasta tímabil.

Körfuknattleiksdeild Snæfells hefur ákveðið að segja upp samningum við þrjá erlenda leikmenn og þjálfara liðsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en þetta er gert í ljósi breyttra efnahagsaðstæðna.

„Þetta er fyrst og fremst gert til að hægt sé að reka deildina í vetur. Því miður hafa aðstæður breyst það mikið að sú fjárhagsáætlun sem lagt var af stað með fyrir þetta tímabil er algjörlega brostin. Því er það mat stjórnar að þetta sé eina raunhæfa lausnin í stöðunni. Snæfell mun tefla fram sterku liði skipuðu íslenskum leikmönnum og ætlar sér stóra hluti í deildinni í vetur," segir í tilkynningunni.

Leikmennirnir Tome Dislijev, Nikola Dzeverdanovic og Nate Brown hafa verið leystir undan samningi ásamt þjálfaranum Jordanco Davitkov. Stjórn körfuknattleiksdeildar Snæfells hefur ákveðið að boða til íbúafundar á þriðjudagskvöld.

Formenn félaga í Iceland-Express deildinni héldu fund í kvöld þar sem m.a. var rætt um hugsanlegt samráð um að skipa liðin einungis íslenskum leikmönnum. Mörg félög hafa ekki efni á að halda í erlenda leikmenn vegna ástandsins í íslenska efnahagslífinu.

Körfuknattleiksdeild ÍR sagði í síðustu viku upp samningum við sína erlendu leikmenn, Tahirou Sani og Chaz Carr, vegna ástandsins.


Tengdar fréttir

ÍR segir upp samningi við Sani og Carr

Körfuknattleiksdeild ÍR hefur sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að félagið hafi sagt upp samningi við þá Tahirou Sani og Chaz Carr vegna ástandsins í íslenska efnahagslífinu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.