Viðskipti innlent

Hagnaður HS milljarður á fyrri árshelmingi 2008

Hagnaður Hitaveitu Suðurnesja fyrstu sex mánuði ársins nam 979 milljónum króna, en var á sama tímabili fyrir ári 2.964 milljónir króna.

Samkvæmt rekstrarreikningi námu rekstrartekjur Hitaveitunnar á tímabilinu 3.938 milljónir króna en voru 3.345 milljónir króna á sama tímabili árið áður.

Hækkun rekstrartekna nemur 18% og skýrist hún að miklu leyti af auknum tekjum af sölu á raforku til stóriðju vegna hækkandi álverðs og gengisþróunar íslensku krónunnar auk áhrifa af Orkuveri 6 sem tekið var í notkun undir lok ársins 2007 og er árið 2008 fyrsta heila árið sem það er í rekstri.

Skuldir fyrirtækisins nema 24.373 milljónum krónum samkvæmt efnahagsreikningi og þar af eru skammtímaskuldir 4.802 milljónir króna. Skuldir hafa hækkað um 7,5 milljarð frá áramótum. Af því nemur hækkun langtímaskulda um ríflega 6,2 milljarð.

Að auki hefur myndast tekjuskattsskuldbinding hjá félaginu að fjárhæð 1.274 milljónum króna sem er að mestu leyti tilkomin vegna endurmats rekstrarfjármuna. Skammtímaskuldir hækka um 1.374 milljónir og skýrist sú hækkun að mestu leyti af auknum vaxtaberandi skammtímalántökum auk hækkunar ógreidds framkvæmdakostnaðar.

Eigið fé Hitaveitu Suðurensja nam 28.058 milljónum króna í lok tímabilsins. Eiginfjárhlutfall var 54% og breyttist ekki frá ársbyrjun. Í ársbyrjun var eigið fé 19.976 milljónir króna. Hækkun eigin fjár skýrist að mestu leyti af hækkun vegna endurmats rekstrarfjármuna. Á tímabilinu var eigendum félagsins úthlutað hálfur milljarður í arð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×