Viðskipti innlent

Lögfræðingaher á landinu á vegum kröfuhafa bankanna

Kröfuhafar íslensku bankanna óttast að eignir verði seldar á brunaútsölu. Möguleiki er að rifta kaupum ef þau reynast vera langt undir markaðsvirði. Um 300 manna her lögfræðinga er nú hér á landi til að vernda hagsmuni kröfuhafa.

Ýmsir aðilar hafa sýnt því áhuga að kaupa skuldir bankanna og nægir þar að nefna Philip Green sem þegar hefur gert tilboð í skuldir Baugs í íslensku bönkunum á verulegum afslætti. Glitnir í Svíþjóð var t.a.m. seldur sænska bankanum HQ fyrir 60 milljónir sænskra króna en kaupverðið var 425 milljónir árið 2006 eða sjöfalt hærra en söluverðið er nú. Í þessu sambandi hefur verið talað um brunaútsölu á eigum bankanna.

Viðar Lúðvíksson, lögmaður, telur að þrátt fyrir að eignir séu seldar á lægra verði í dag en kaupverði sé ekki þar með sagt að um brunaútsölu sé að ræða. Aðstæður á markaði í dag séu hreinlega þannig að eignir hafa rýrnað í verði.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru nú um 300 lögfræðingar hér á landi til að verja hagsmuni kröfuhafa í gömlu kennitölur bankanna. Skilanefndir fara með mál bankanna en þeir hafa ekki verið lýstir gjaldþrota. Ef það verður raunin þá geta komið til ákvæði laga til gjaldþrotaskipta sem væri hægt að nýta til að koma í veg fyrir að eignir séu seldar á verði sem er langt undir markaðsverði.

Kaupendur á eignum bankanna gætu því átt það á hættu að kaupunum verði rift eða fá bakreikning verði bankarnir lýstir gjaldþrota.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×