Viðskipti innlent

Viðsnúningur á vöruskiptunum

Hagstofan hefur birt tölur um vöruskipti við útlönd fyrstu níu mánuði ársins. Vöruskipti í september voru hagstæð um 7,8 milljarða króna. Í mánuðinum voru fluttar út vörur fyrir 50,2 milljarða króna og inn fyrir 42,4 milljarða króna. Þetta er töluverður viðsnúningur því í september í fyrra voru vöruskiptin óhagstæð um 13,8 milljarða króna á sama gengi. Það sem af er ári er halli á vöruskiptunum upp á 42,6 milljarða sem er þó betri útkoma en fyrir ári þegar hallinn var 95,6 milljarðar. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 53,0 milljörðum króna hagstæðari nú en á sama tíma árið áður.

„Fyrstu níu mánuðina 2008 voru fluttar út vörur fyrir 322,6 milljarða króna en inn fyrir 365,1 milljarð króna fob (396,2 milljarða króna cif). Halli var á vöruskiptunum við útlönd, reiknað á fob verðmæti, sem nam 42,6 milljörðum en á sama tíma árið áður voru þau óhagstæð um 95,6 milljarða á sama gengi¹. Vöruskiptajöfnuðurinn var því 53,0 milljörðum króna hagstæðari en á sama tíma árið áður," segir í frétt á heimasíðu Hagstofunnar.

„Nú liggja fyrir nýjar upplýsingar um verslun með flugvélar við útlönd fyrir þriðja ársfjórðung. Helstu áhrif þeirra eru að tölur fyrir september sýna 7,8 milljarða króna afgang á vöruskiptum í stað þess að vöruskiptin væru í járnum eins og bráðabirgðatölur fyrir september gáfu til kynna. Hins vegar eykst halli júlímánaðar," segir einnig í fréttinni.

„Fyrstu níu mánuði ársins 2008 var verðmæti vöruútflutnings 54,1 milljarði eða 20,1% meira á föstu gengi¹ en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 51,1% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 53,1% meira en árið áður. Sjávarafurðir voru 35,7% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 2,2% minna en á sama tíma árið áður. Mest aukning var í útflutningi á áli en á móti kom samdráttur í útflutningi sjávarafurða, aðallega frystra flaka."

„Fyrstu níu mánuði ársins 2008 var verðmæti vöruinnflutnings 1,0 milljarði eða 0,3% meira á föstu gengi¹ en á sama tíma árið áður. Mest aukning varð í innflutningi á hrá- og rekstrarvörum og á eldsneyti og smurolíum en á móti kom samdráttur í innflutningi á fjárfestingarvöru og flutningatækjum, aðallega flugvélum og fólksbílum."

Nánar má kynna sér málið á heimasíðu Hagstofunnar.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×