Viðskipti innlent

Óvissa um kaup á 8,5% hlut í Geysi Green

Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geyss Green Energy.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri Geyss Green Energy.

Óvissa ríkir um hvort fyrirhuguð kaup Ólafs Jóhanns Ólafssonar og Goldman Sachs á samtals 8,5% hlut í Geysi Green Energy nái fram að ganga.

Tilkynnt var um kaup þeirra á hlutnum í september á síðasta ári og herma heimildir Vísis að andvirði samningsins nemi um 30 milljónum Bandaríkjadala. Aðspurð sagði Auður Nanna Baldvinsdóttir, yfirmaður markaðs- og samskiptamála hjá Geysi Green Energy, að Goldman Sachs hefðu hætt við kaupin á 4% hlutnum. Hún benti hins vegar á Kristján Björgvinsson fjármálastjóra fyrirtækisins til nánari útskýringar.

Kristján sagði í samtali við Vísi að það væri misskilningur að hætt hefði verið við kaupin. „Þeir hafa áhuga og hafa sent okkur tilboð sem okkur finnst ekkert spennandi. En það er samt ekkert allt út úr myndinni ennþá," sagði Kristján í samtali við Vísi. Kristján segir að verið sé að skoða tilboðið og málin skýrist betur í lok þessarar viku eða byrjun næstu.

Í samtali við Vísi sagði Ólafur Jóhann Ólafsson að enn væri unnið að samningum en þeir gætu farið á ýmsa vegu. Ekkert væri fullfrágengið varðandi samningana. Hann sagði að menn ræddu saman nánast daglega og að málin myndu skýrast á næstu vikum.

Ekki náðist í Ásgeir Margeirsson, forstjóra Geysis Green Energy, við vinnslu fréttarinnar. Almannatengsladeild Goldman Sachs hefur ekki svarað fyrirspurnum Vísis varðandi málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×