Íslenskir eigendur Sterling flugfélagsins hafa ákveðið að styrkja rekstur félagsins með hátt í þriggja milljarða króna fjárframlagi.
Þetta kemur fram í viðskiptablaðinu Börsen í dag. Það eru FL Group og Fons sem eiga Sterling í gegnum Northern Travel Holding.
Upphæðin er annarsvegar tilfærsla á rekstrarfé að upphæð tæplega 2 milljarðar króna til Sterling og hinsvegar ábyrgðarlán upp á um 750 milljónir kr.
Sterling náði að bæta rekstrarstöðu sína um nær tvo milljarða króna á síðasta ári með miklum aðhaldsaðgerðum og fækkun starfsfólks. Hinsvegar hefur hið háa eldsneytisverð á síðustu mánuðum sett strik í reikninginn hjá Sterling eins og öðum flugfélögum.