Viðskipti innlent

Bankarnir verða aðstoða fólk í góðu og slæmu árferði

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir lán íslenskra banka til fyrirtækja og til húsnæðiskaupa mjög lítil um þessar mundir og að bankarnir verði aðstoða fólk bæði í slæmu árferði og góðu.

Þetta kemur fram í viðtali við hann á norska viðskiptavefnum E24. Hann segir útlán bankanna of lítil og það geti ekki gengið til lengdar. Um 15,5 prósenta stýrivexti Seðlabankans segir Geir að hann eigi von á því að þeir bíti fljótt og það muni draga úr verðbólgu. Þá verði auðveldara fyrir Seðlabankann að lækka vexti.

Geir segir í viðtalinu ekki vita hvenær íslenska efnahagskerfið verði frískt á ný eins og það er orðað. „Ég þori ekki að spá fyrir um það en ég tel þó að það sé ekki mjög langt í það. Við erum komin yfir það versta þrátt fyrir að efnhagslífið sé í lægð. Efnahagurinn þarf að lækka flugið til þess að hægt sé að ná því aftur,“ segir Geir.

Geir bendir á að mikilvægi sjávarútvegsins í þjóðarbúinu á Íslandi fari minnkandi en fjármálakerfið sé vaxandi og þá séu miklir möguleikar í orkumálum og ferðaþjónustu. Því hafi stoðum íslensks efnahagslífs fjölgað. Aðspurður um framtíðaruppbyggingu í landinu bendir Geir á að tvö netþjónabú séu í byggingu. Ísland eigi ódýra, endurnýjanlega orku og fyrirtæki sem þurfi orku og mengi ekki séu boðin sérlega velkomin til Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×