Viðskipti erlent

Til bjargar Starbucks

Flest kaffihúsin sem loka á eru í úthverfum og smábæjum. AFP/Markaðurinn
Flest kaffihúsin sem loka á eru í úthverfum og smábæjum. AFP/Markaðurinn

Mörgum fastagestum kaffihúsakeðjunnar Starbucks varð brugðið þegar þeir sáu að loka átti „þeirra“ Starbucks-kaffihúsi. Einhverjir viðskiptavinir kaffihúsakeðjunnar hafa því skipulagt herferðir og dreift undirskriftalistum til að fá stjórnendur fyrirtækisins til að endurskoða ákvörðun sína.

Í síðustu viku birti fyrirtækið lista yfir þau kaffihús sem loka á, en loka á 600 kaffihúsum í Bandaríkjunum. Þó að flest kaffihúsin sem loka á séu í Flórída, Kalíforníu og Texas, munu önnur strjálbýlli ríki Bandaríkjanna þó tapa hlutfallslega mest. Þannig mun Suður-Dakóta missa þriðjung allra Starbucks-kaffihúsa sinna við lokunina, en nú rekur keðjan 12 kaffihús í ríkinu.

Skiptar skoðanir eru um Starbucks-kaffihúsakeðjuna, en hún hefur oft verið gagnrýnd fyrir að grafa undan litlum sjálfstæðum kaffihúsum. Á móti kemur að í mörgum smábæjum og úthverfum þykir koma Starbucks-kaffihúss ákveðin tímamót. Los Angeles Times greindi einnig frá því á þriðjudag að í mörgum hverfum L.A. hafi verið litið á veru Starbucks-kaffihúsa sem ákveðin gæðastimpil, og að þau hafi haft jákvæð áhrif á fasteignaverð í nágrenninu.

Fyrirtækið segir að of geyst hafi verið farið í opnun nýrra kaffihúsa undanfarin ár, og viðvarandi taprekstur sé á öllum þeim kaffihúsum sem loka á.

Áætlað er að 12.000 manns munu missa vinnuna vegna þessara aðgerða. - msh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×