Viðskipti innlent

Spá því að lítilega dragi úr verðbólgu í september

Greining Glitnis gerir ráð fyrir að lítillega dragi úr ársverðbólgu í september en að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 1,1% frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir mun ársverðbólga mælast 14,3% í september og vera þar með komin yfir toppinn á þeim kúf sem náði hámarki í ágúst.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að hækkun VNV í október verður töluvert minni eða 0,5% og enn minni í síðustu tveimur mánuðum ársins. Í október verður árstakturinn enn yfir 14% en næstu mánuði á eftir dregur svo rólega úr ársverðbólgunni.

Helsti áhrifaþáttur til hækkunar VNV í september er áframhaldandi verðhækkun innfluttrar vöru vegna gengislækkunar fyrr á árinu. Áhrifa vegna þess að sumarútsölum er lokið mun gæta af fullum krafti í þessum mánuði en þeirra mun einnig gæta lítillega í október.

Greiningin reiknar með að gengisáhrif á verð fatnaðar verði sterk þetta haustið. Húsnæðisverð lækkaði minna á sumarmánuðum en greiningin gerði ráð fyrir en á von á að sjá lækkun nafnverðs húsnæðis á haustmánuðum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×