Viðskipti innlent

Af og frá að SPM sé tæknilega gjaldþrota

„Þetta kemur kannski sumum á óvart," segir Sigurður Már Einarsson, stjórnarformaður Sparisjóðs Mýrarsýslu en lagt hefur verið til að stofnfé sjóðsins verði aukið um tvo milljarða og að eftir aukninguna ráði Kaupþing banki yfir 70 prósentum af hlutafé sjóðsins. Sparisjóðurinn er nú að fullu í eigu sveitarfélagsins Borgarbyggðar.

„Efnahagsástandið að undanförnu hefur reynt á fjármálafyrirtækin, fjármögnun hefur verið erfið og gengistap mikið," segir Sigurður. Niðurstaða stjórnar sjóðsins hafi því verið sú að bregðast við þessu á þennan hátt og leita til Kaupþings í því sambandi.

Aðspurður hvort sjóðurinn sé ekki í raun tæknilega gjaldþrota segir Sigurður það af og frá. „Við þurftum einfaldlega góðan bakhjarl til þess að treysta hann til frambúðar og við teljum okkur ná því með þessum breytingum," segir Sigurður. Hann bætir því við að enn liggi ekki annað fyrir en að sjóðurinn verði rekinn áfram með óbreyttu sniði. Kaupthing leggur til 1,7 milljarð í sjóðinn og fær fyrir það 70 prósenta hlut.

Sparisjóður Mýrasýslu er eini sveitarfélagasparisjóðurinn á landinu en Borgarbyggð á eins og staðan er í dag allt stofnfé hans. „Við höfum unnið að þessu í nokkrar vikur og þessar breytingar eru unnar í nánu samstarfi við sveitarfélagið," segir Sigurður Már Einarsson, stjórnarformaður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×